Þær Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir og Eygló Harðardóttir eru flutningsmenn nýrrar þingsályktunartillögu um 10 ára aðgerðaráætlun gegn tóbaksnotkun sem var lögð fyrir Alþingi í dag. Þetta er í þriðja sinn sem þingsályktunartillagan er lögð fram en á síðustu tveimur þingum hefur hún ekki fengið umfjöllun.

Í tillögunni felst meðal annars að aðgengi að tóbaki verði takmarkað með því að það verði fyrst tekið úr almennri sölu. Tóbak verði þá einungis selt í apótekum með sérstakt tóbakssöluleyfi. Eftir tíu ár yrði svo gerð krafa um að tóbakslyfseðli yrði framvísað af kaupendum.

Þá er lagt til að aðrar og nýjar dreifingar- og söluleiðir á tóbaki verði óheimilar, verð á tóbakssöluleyfum hækki og þeim verði fækkað, aldur til að starfa við að selja tóbak fylgi áfengiskaupaaldri og að aldur til að kaupa tóbak fylgi áfengiskaupaaldri. Einnig á að hækka tóbaksverð. Í tillögunni felst einnig að tóbak verði flokkað sem ávana- og fíkniefni í lögum.

Athygli vekur að samkvæmt tillögunni er stefnt að því að setja reglur um að tóbaksumbúðir verði einsleitar og ekki aðlaðandi í útliti, þ.e. einlitur brúnn pappír með heilsuviðvörunum þeki a.m.k. 80% af framhlið og bakhlið þeirra. Þannig á að sporna við markaðssetningu tóbaksfyrirtækjanna sem með útliti tóbaksvara tengja þær jákvæðum ímyndum, eins og æsku, hreysti, ríkidæmi, karlmennsku eða kvenleika.