Von er á tóbakshornum aftur í sölu. Í svari ÁTVR við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að von sé á hornunum aftur, en endanleg tímasetning liggi ekki fyrir. Unnið hefur verið að breytingum á vélbúnaði í framleiðslunni og lítils háttar breytingum á umbúðum þó þannig að hornin verða með innsigluðum tappa.

Tæpt ár er síðan plasthornin voru tekin úr sölu vegna þess að breyta þurfti útliti þeirra. Í desember í fyrra var haft eftir aðstoðarforstjóra ÁTVR að um tímabundið ástand væri að ræða, en ljóst er að unnendur tóbakshornsins þurfa að bíða aðeins lengur.