Samkvæmt nýjum sölutölum frá ÁTVR hefur tóbaksneysla aukist á Íslandi. Sölutölurnar eru fyrir fyrstu fimm mánuði ársins og hefur sala á tóbaki aukist í nánast öllum flokkum.

Athygli vekur mikil aukning í sölu neftóbaks á fyrstu fimm mánuðunum. Hækkunin nemur 37 prósentum. Sala á sígarettum hefur einnig aukist, eða um tæp sex prósent milli ára. Þá jókst sala á reyktóbaki um rúm þrjú prósent en sala á vindlum dróst saman, um rúm tvö prósent.

Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis, segist í samtali við Morgunblaðið í dag taka tölunum með fyrirvara, vegna þess um hversu stutt tímabil sé að ræða. Hann segir þó jafnframt að tölurnar veki athygli, ekki síst vegna þess að reykingar hafi farið minnkandi síðustu ár. Því séu tölurnar nokkuð úr takti við þá þróun.

Sala á neftóbaki dróst nokkuð saman fyrir rúmu ári vegna talsverðra verðhækkana. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir í samtali við Morgunblaðið að mögulega megi rekja söluaukninguna nú til þess að markaðurinn sé að leiðréttast. Hún segir þó að aukningin sé talsvert meiri en búist hafi verið við.