Níu þingmenn með Jón Magnússon, þingmann Frjálslynda flokksins, í broddi fylkingar hafa lagt fram á Alþingi frumvarp um að reykingar verði leyfðar á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum. Flutningsmennirnir telja að lögin um algjört reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum hafi gengið of langt.

Lögin um algjört reykingabann tóku gildi 1. júní 2007.

Í greinargerð frumvarpsins segjast þingmennirnir sammála þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að með reykingabanni. Þeir telji mikilvægt að notkun tóbaksreyks verði sem minnst "og fari þannig fram að það valdi ekki vandamálum hjá þeim sem ekki reykja tóbak."

Spurningin sé hins vegar hversu langt eigi að ganga í að setja lög um hegðun og lífsvenjur fulltíða einstaklinga, til að mynda um tókabsreykingar, þó að meirihluti samfélagsins telji þær óæskilegar.

"Flutningsmenn frumvarpsins telja að vel hafi tekist til með tóbaksvarnalögin að flestu leyti en þó hafi verið gengið of langt í að takmarka tóbaksreykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Nauðsynlegt hefði verið að heimila reykingar á afmörkuðum svæðum á og/eða við veitinga- og skemmtistaði þar sem svo væri búið um hnúta að þeir sem vinna á umræddum stöðum eða eru þar gestkomandi og reykja ekki sjálfir verði ekki fyrir óþægindum vegna reykinga, " segir í greinargerð frumvarpsins.

Meðflutningsmenn Jóns eru þingmennirnir Hanna Birna Jóhannsdóttir, Frjálslynda flokknum, Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki, Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, Kjartan Ólafsson, Sjálfstæðisflokki og Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki.