Þorbjörg Marinósdóttir, betur þekkt sem Tobba Marinós, hefur verið ráðin nýr ristjóri DV. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins . Hún tekur við starfinu af Lilju Katrínu Gunnarsdóttur, en greint var frá því í gær að hún myndi hverfa frá störfum.

Í síðustu viku heimilaði Samkeppniseftirlitið kaup Torgs, sem er útgáfufélag Fréttablaðsins og Hringbrautar, á Frjálsri fjölmiðlun, útgáfufélagi DV. Í kjölfar þess hefur verið ráðist í endurskipulagningu á DV og voru uppsagnir sem greint var frá í gær partur af því.

Tobba mun hefja störf á næstu vikum.

„Ég hlakka til að takast á við að ritstýra DV og dv.is. Netmiðillinn ásamt undirmiðlunum er einn sá fjölsóttasti hér á landi og nú tekur við að laga þar til í efnisvali og efnistökum,“ er meðal þess sem haft er eftir Tobbu í frétt Fréttablaðsins. Þar segir hún jafnframt að ristjórnarstefna DV verði nú löguð að ritstjórnarstefnu Torgs, sem feli óhjákvæmilega í sér nokkrar breytingar.

Tobba er menntaður fjölmiðlafræðingur og hefur auk þess lokið meistaragráðu í verkefnastjórnun. Hún hefur í gegnum tíðina starfað mest í kringum fjölmiðla og hefur þar að auki gefið út nokkurn fjölda af bókum.

Þá segir í Fréttablaðinu að hlé verði gert á pappírsútgáfu DV meðan unnið sé að breytingum útlits og efnistaka. Stefnt sé að útgáfu nýs og öflugra DV á næstunni. Ekkert hlé verði þó gert á starfsemi dv.is.