*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 4. febrúar 2011 16:22

Tobba Marinós stofnar félag um starfsemi sína

Tobba Marínós hefur stofnað samlagsfélag utan um starfsemi sína. Hún segir að reksturinn verði án efa á háum hælum með gloss.

Ritstjórn
Þorbjörg Alda Marinósdóttir, miklu betur þekkt sem Tobba Marinós.
Aðsend mynd

Þorbjörg Alda Marinósdóttir, miklu betur þekkt sem Tobba Marinós, hefur stofnað samlagsfélag utan um starfsemi sína. Félagið heitir Makalaus slf. og var stofnað nú í janúar. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Tobba að starfsemin hafi farið ört stækkandi og því verið nauðsynlegt að stofna félagið. „Ég gaf út tvær bækur á síðasta ári og því fylgdi allskonar basl,“ segir Tobba en tilgangur félagsins er „útgáfustarfsemi, skemmtanahald, starfsemi rithöfunda og tengd starfsemi“.

Ört stækkandi veldi

Bækurnar Makalaus og Dömusiðir komu út í fyrra. Nú standa yfir upptökur á þáttaröð eftir þeirri fyrrnefndu og segir Tobba að stefnt sé að því að sýningar hefjist í byrjun mars næstkomandi. „Núna er ég að vinna að framhaldinu að Makalaus. Ég sé því fram á aukna starfsemi á komandi árum og ákvað að búa til eitt stykki fyrirtæki, og finnst það virkilega fullorðinslegt.“ Aðspurð um skemmtanahaldið, sem félagið heldur einnig um, segir Tobba að undir það falli ýmislegt, t.d. upplestur, uppistand, fyrirlestrar og kennsla.

Ekki er að heyra annað en að Tobba sé afar sátt með nýstofnað samlagsfélag sitt, sem móðir hennar á 1% hlut í. „Þetta verður án efa rekstur á háum hælum með mikið gloss. Stelpur með varalit mega líka lifa í karlaheiminum.“

Stikkorð: Makalaus Tobba Marínós