Fjárfestahópur undir forystu bandaríska fjárfestisins Todd Boehly mun taka yfir knattspyrnufélagið Chelsea á tæplega 700 milljarða íslenskra króna, segir í frétt Financial Times.

Nadine Dorries, ráðherra íþróttamála í Bretlandi gaf það út í síðustu viku að ríkisstjórnin hefði gefið út leyfi fyrir sölu á félaginu. Það markar enda langs og flókins ferlis sem hófst eftir að Bretar beindu refsiaðgerðum sínum að Roman Abramovich, fráfarandi eiganda félagsins, vegna náinna tengsla hans við Vladimír Pútín.

Til þess að leyfi fengist fyrir sölunni þurfti Abramovich að sýna fram á að hann sjálfur myndi ekki hagnast á neinn hátt og að allur hagnaðurinn rynni í óháðan sjóð til styrktar fórnarlömbum stríðsins í Úkraínu.

Dorries skrifaði á Twitter í síðustu viku að ríkisstjórnin hefði gefið leyfi fyrir sölu knattspyrnufélagsins á þriðjudagskvöld. „Miðað við þær viðskiptaþvinganir sem við höfum beitt gegn þeim sem hafa sterk tengsl við Pútín og blóðugu innrásina í Úkraínu, verður framtíð félagsins einungis tryggð með nýjum eiganda.“

Dorries staðfesti einnig að ríkisstjórnin hefði gengið úr skugga um að hvorki Abramovich né nokkur annar aðili sem beittur væri þvingunum myndi hagnast á sölu félagsins.