Vísitala íbúðaverðs fyrir apríl, maí og júní átti að birtast í dag samkvæmt útgáfuáætlun. Hins vegar verður töf á birtingu vísitölunnar fyrir maí og júní vegna þess að enn er verið að þinglýsa þeim skjölum sem vísitalan byggir á.

Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,2% í apríl. 12 mánaða hækkun vísitölunnar, miðað við þann mánuð, nemur 7,8%. Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs um 1,4%. 12 mánaða raunhækkun íbúðaverðs var því 6,4% í apríl.

Vísitölur fyrir maí og júní munu birtast um leið og búið verður að þinglýsa og skrá gögn fyrir þá mánuði.