Töf hefur orðið á framkvæmdum í álverinu í Straumsvík en stefnt er að því að ljúka breytingu á tveimur af þremur kerskálum á næsta ári. Áður stóð til að ljúka þeim breytingum á þessu ári. Viðskiptablaðið greindi frá því sl. haust að tafir hefðu orðið á framkvæmdum vegna tæknilegra örðugleika, þ.e. á þeim hluta verkefnisins sem sneri að því að auka framleiðslu álversins um 20% sem var einn angi af viðamiklu fjárfestingarverkefni álversins.

Önnur breyting á framleiðslu álversins, þ.e. að framleiða bolta í stað barra áður, er á áætlun. Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að tímabundið framleiðslutap vegna kerskálabreytinganna sé áætlað innan við 10% af ársframleiðslu. Fjárfesting álversins vegna verkefnisins nam í fyrra um 17 milljörðum króna.