Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing sér nú fram á auknar tekjur eftir að hafa loksins afhent fyrsta eintakið af 787 Dreamliner vélinni um síðastliðna helgi.

Sem kunnugt er var fyrsta vélin afhent japanska flugfélaginu All Nippon Airways á sunnudag, rúmum 40 mánuðum á eftir áætlun.

Framleiðslan á 787 Dreamliner vélinni hefur ekki gengið mun hægar en vonir stóðu til en fyrir því eru margar ástæður. Þar má meðal annars nefna verkfall starfsmanna Boeing, tafir á afhendingu varahluta og efna í vélina, vélin reyndist mun þyngri en upphaflega var áætlað og tilraunaflugið hefur tekið lengri tíma en fyrst var gert ráð fyrir, meðal annars vegna eldsvoða í flugstjórnarklefa, svo einhver dæmi séu tekin.

Fyrstu vélinni var reynsluflogið þann 15. desember 2009. Upphaflegt prufunarferli átti að taka 9 mánuði en hefur nú tekið um 20 mánuði.

En þrátt fyrir að fyrsta vélin hafi nú verið afhent í almenna notkun eru vandamál Boeing vegna vélarinnar ekki úr sögunni. Upphaflega hafði Boeing gert ráð fyrir að afhenda 10 vélar á mánuði í lok árs 2013. Boeing getur enn náð því markamiði en til þess þarf félagið að fjárfesta nokkuð í framleiðslulínu sinni, og auka þannig enn við tap félagsins af framleiðslu vélarinnar hingað til.

Sem stendur eru þó um 820 vélar pantaðar og bandaríska greiningarfyrirtækið Bernstein Research telur að Boeing muni hagnast á framleiðslu 787 Dreamliner eftir að hafa selt 1.000 vélar. Hvenær það verður veit enginn en í það minnsta verður fróðlegt að sjá framhaldið.

Um þróun og framleiðslu 787 Dreamliner má lesa í tengdum fréttum hér til hliðar.