Helgin framundan gæti orðið örlagarík í íslenskum stjórnmálum. Stærstu dagblöð þjóðarinnar skrifuðu í gærmorgun drungalega leiðara þar sem talað er um að ríkisstjórnin sé trausti rúin meðal þjóðarinnar. Í gegn skín ótti við að reiði almennings leiti útrásar í mótmælaaðgerðum við Austurvöll á morgun.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu ríkisstjórn eftir kosningarnar í fyrravor og komu sér saman aðgerðaáætlun – öðru nafni stjórnarsáttmála – sem innsigluð var með kossi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, og Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, einn góðviðrisdag austur á Þingvöllum.

Þá lék allt í lyndi, íslenska þjóðin var ríkust, hamingjusömust og minnst spillt allra þjóða og veifaði því til staðfestingar vottorðum virtra erlendra eftirlitsstofnana. Nú er öldin önnur, eignir brenna upp, bankarnir þjóðnýttir, burðarásar í atvinnulífi ramba á barmi gjaldþrots, spáð er stórfelldu atvinnuleysi og óðaverðbólgu, halla á ríkissjóði. Stofnanir hafa glatað trausti og blaðamenn spyrja stjórnvöld ótalmarga spurninga um hvernig allt gat breyst á örskotsstundu en það verður fátt um svör og þau sem fást virðast iðulega mótsagnakennd. Það hefur hlaðist upp mikil spenna hjá þjóðinni, sem er ekki lengur hamingjusömust og ríkust, heldur óttaslegin og áreiðanlega reiðust allra þjóða í Evrópu.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .