Sú var tíðin að togaraskipstjórar röðuðu sér í nokkur af efstu sætum yfir hæstu skattgreiðendur á Vestfjörðum og á lista yfir tekjuhæstu sjómenn. Þeir dagar eru liðnir ef marka má lista yfir 2.400 tekjuhæstu Íslendingana sem gefinn er út af Frjálsri verslun. Samkvæmt þeim lista eru tekjuhæstu sjómenn með um 2 milljónir króna í tekjur á mánuði. Sá sem kemst hæst á listann af Vestfirðingum er innan við hálfdrættingur við þann hæsta. Það er Jón Árnason skipstjóri á Vestra frá Patreksfirði með 904 þúsund krónur í tekjur á mánuði. Á þetta er bent á fréttavef Bæjarins Besta á Ísafirði.

Þeir sem komast á listann frá Vestfjörðum eru:

Jón Árnason skipstjóri á Vestra með 904 þúsund krónur á mánuði, Páll Halldórsson skipstjóri á Páli Pálssyni með 876 þúsund krónur á mánuði, Egill Jónsson skipstjóri í Bolungarvík með 842 þúsund krónur á mánuði, Finnbjörn Elíasson skipstjóri á Halla Eggerts með 760 þúsund krónur á mánuði, Jónatan Ingi Ásgeirsson skipstjóri á Andey með 654 þúsund krónur á mánuði, Gunnar Arnórsson skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni með 641 þúsund krónur á mánuði, Ómar Ellertsson skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni með 625 þúsund krónur á mánuði, Skúli Elíasson skipstjóri með 624 þúsund krónur á mánuði og Heiðar Jóhannsson sjómaður á Júlíusi Geirmundssyni með 473 þúsund krónur á mánuði.

Þess skal getið að listinn er ekki tæmandi yfir tekjuhæstu einstaklinga í þessari atvinnugrein en ljóst er þó að togaraskipstjórar bera ekki af eins og áður var á Vestfjörðum segir í frétt BB.

Byggt á frétt á vef BB.