Arnar Þórarinn Barðdal, fyrrverandi framkvæmdastjóri Víkurverks, var í gær dæmdur í Hæstarétti til að greiða þrotabúi félagsins, sem nú heitir LB09 ehf., 25,8 milljónir króna. Rift var fjórum greiðslum sem færðar höfðu verið af reikningum Víkurverks til Arnars í ágúst og október 2009.

Segir í dómi Hæstaréttar að þegar fyrri tvær greiðslurnar voru inntar af hendi hafi skuldir Víkurverks við Landsbankann verið komnar í vanskil og þá voru síðari greiðslurnar tvær inntar af hendi eftir að gert hafði verið árangurslaus kyrrsetningargerð hjá félaginu.

Arnar hélt því fram að fyrri greiðslurnar tvær væru annars vegar vaxtagreiðsla til hans og hins vegar arðgreiðsla. Engar skýringar voru gefnar á síðari greiðslunum tveimur, en Arnar hélt því fram undir rekstri málsins að greiðslur aðrar en arðgreiðslan hafi verið vegna láns sem hann hafi veitti félaginu þegar hann keypti það í lok desember 2004. Hann hafi lagt félaginu til 25 milljónir króna.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að vafalaust sé að Víkurverk hafi verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi. Þær hafi verið framkvæmdastjóranum til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt og á kostnað annarra kröfuhafa og hafi honum mátt vera það ljóst. Var greiðslunum því rift.