Þrjú hundruð milljónir króna fengust upp í veðkröfur vegna gjaldþrots JK Trading ehf. sem rak A-4 verslanakeðjuna.

Þarna var um að ræða söluverð á A-4, það er birgðum og rekstri, að sögn Sigurmars K. Albertssonar skiptastjóra.

Kaupandinn var Björg slhf., lokaður fagfjárfestasjóður sem er 100% í eigu skilanefndar Sparisjóðabankans. Verðbréfafyrirtækið Arev rekur A-4 fyrir hönd Bjargar.

Sparisjóðabankinn átti veðkröfurnar en alls námu þær 749 milljónum króna. Samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu fékkst ekkert upp í forgangskröfur og almennar kröfur.