*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 4. ágúst 2016 12:03

Tök ANC á Suður Afríku að losna

Í fyrsta sinn síðan ANC náði völdum í Suður Afríku við lok Apartheid minnka tök flokksins á stjórnkerfi landsins.

Ritstjórn
Fyrir formlega sameiningu landsins í eitt ríki voru blökkumenn, um 80% íbúanna, álitnir borgarar í svokölluðum heimalöndum sinna ættbálka. Voru þau álitin sjálfstæð formlega þó önnur ríki en Suður Afríka viðurkenndu þau ekki sem slík.

Nú þegar niðurstöður í sveitarstjórnarkosningum í Suður Afríku, sem haldnar voru í gær, eru að koma fram virðist vera sem tök stjórnarflokksins Afríska þjóðarráðsins á landinu séu eitthvað að minnka í fyrsta sinn síðan flokkurinn tók völdin í kosningum árið 1994 þegar Apartheid aðskilnaðarstefnunni lauk formlega.

Stefnir í að þeir nái í fyrsta sinn ekki meirihluta í þremur mikilvægum og fjölmennum sveitarstjórnum landsins sem innihalda Pretoríu, Jóhannesarborg og Port Elisabeth.

Stýrt landinu nánast einhliða síðan 1994

Voru það fyrstu kosningarnar í landinu þar allir þjóðfélagshópar gátu tekið þátt á jöfnum grundvelli án mismununar, og sigruðu þeir þá þingkosningarnar með 62,65% atkvæða, og hafa þeir haldið völdum í nánast öllum héruðum og helstu borgum landsins meira og minna sleitulaust síðan. 

Eina undantekningin hefur verið að helsti stjórnarandstöðuflokkurinn Lýðræðisbandalagið (DA) hefur ráðið Höfðaborg og síðan 2006 héraðinu þar í kring, Western Cape. Þess má geta að Höfðaborg er ein þriggja höfuðborga landsins en þar situr þing landsins. 

ANC heldur enn meirihluta á landsvísu

ANC heldur enn meirihluta atkvæða á landsvísu, en hann minnkar töluvert og fer niður í 52,3% nú þegar rétt um helmingur atkvæða á landsvísu hafa verið talin.

Fær DA 29,5% atkvæða en hinir svokölluðu efnahagslegu frelsisbaráttumenn (EFF) sem er klofningur úr vinstri armi ANC og berst fyrir þjóðnýtingu í anda Chaves í Venesúela fá 7,1%.

Mikilvægar borgir renna ANC úr greipum

Í Tshwane, sem inniheldur höfuðborg framkvæmdavaldsins, Pretoríu, er DA nú með 45,7% atkvæða, meðan ANC hefur 40,9%.

Í Jóhannesarborg, stærstu borg landsins er DA með 44,5% meðan ANC er með 40,5% og í Nelson Mandela flóa, sem inniheldur Port Elisabeth, er DA með 53,4% samanborið við 36,3% stuðning við ANC. Jafnframt virðist flokkurinn vera að auka við meirihluta sinn í Höfðaborg.

Spilling og óstjórn

„Þetta er staðfesting á því að ANC undir stjórn Jakob Zuma og þau vandamál sem hafa verið áberandi í kringum forsetatíð hans, sérstaklega þegar kemur að spillingu og alræðistilburðum, hafa skemmt fyrir ANC í þéttbýlustu og menntuðustu svæðunum,“ segir Nic Borain, stjórnmálagreinandi.

Þrátt fyrir að DA sem vill gera einkafyrirtækjum auðveldara að starfa er hugmyndafræðilega í algerri andstöðu við EFF sem vill þjóðnýta banka, land og námur, hafa báðir flokkarnir sagt að þeir séu opnir fyrir því að mynda bandalög við hvorn annan en ekki við ANC, sem eykur líkurnar á því að ANC verði haldið frá stjórn í þessum helstu borgum landsins. 

Þrátt fyrir það sagði Jessi Duarte, vara-aðalritari ANC að þeir hefðu fulla trú að þeir munu halda öllum þeim þéttbýliskjörnum sem þeir hafa haldið stjórn á hingað til. „Við höfum engar áhyggjur.“