Flugfélag Íslands mun frá og með deginum í dag taka upp nýtt nafn; Air Iceland Connect. Ástæður fyrir nafnbreytingunni eru sagðar nokkrar í fréttatilkynningu.

Má þar nefna aukin umsvif á erlendum mörkuðum, umtalsverða fjölgun erlendra ferðamanna, aukið samstarf við Icelandair og einföldun á markaðsstarfi, en tvöfalt nafnakerfi félagsins hefur þýtt talsverðan kostnaðarauka og valdið einhverjum farþegum óþægindum og orsakað misskilning.

Notuðu Air Iceland samhliða um árabil

„Við höfum notað nafnið Air Iceland um árabil en með því að bæta við orðinu Connect, eða tengja, sýnum við tengingu við íslenska náttúru og áfangastaði, tengingu við okkar erlenda áfangastaði á borð við Grænland,  Skotland og Norður-Írland og aðgreinum okkur aðeins frá Icelandair “ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.

„Þetta er lýsandi nafn, alþjóðlegt og við erum sannfærð um að þetta muni leiða til sterkara vörumerkis á þeim alþjóðamarkaði sem flugsamgöngur vissulega eru.“

„Félagið hefur verið að vinna í breytingum um nokkurt skeið, endurnýjað flugflotann, aukið samstarfið við Icelandair, tekið á móti sífellt fleiri erlendum ferðamönnum og skilgreint markaðsstefnu okkar enn betur,“ segir Árni. „Það er rökrétt næsta skref að leggja niður þetta tvöfalda nafnakerfi og taka upp eitt lýsandi og alþjóðlegt vörumerki.“

Hefja flug til Norður-Írlands

Nafnbreytingin mun að sjálfsögðu taka einhvern tíma og mun lénið www.flugfelag.is t.a.m. verða virkt en áframsenda notandann á heimasíðu félagsins www.airicelandconnect.com .

Auk algjörrar endurnýjunar á flugflota Air Iceland Connect þar sem Fokker vélum var skipt út fyrir nýrri og betri vélar af gerðinni Bombardier Q-400 og Q-200, hefur félagið á síðustu mánuðum hafið áætlunarflug milli Akureyrar og Keflavíkur, aukið flug til Grænlands og Skotlands og frá og með 1. júní bætist við nýr áfangastaður; Belfast á Norður-Írlandi.