Íbúðalánasjóður eignaðist 96 fullnustueignir í síðasta mánuði og átti í marslok 2.377 fasteignir. Fram kemur í mánaðarskýrslu sjóðsins að rúmur helmingur eignanna sem sjóðurinn hafi eignast voru áður í eigu byggingaraðila, fyrirtækja í leiguíbúðarekstri eða annarra lögaðila.

Af fullnustueignunum 2.377 hefur 1.930 eignum verið ráðstafað í útleigu, sölumeðferð eða annað. Margar þeirra eru á svæðum þar sem nokkurt offramboð er af eignum til sölu og/eða leigu. Þar af voru 981 íbúðir í útleigu um land allt. Langflestar þeirra eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær.

Í sölumeðferð voru 879 íbúðir, annað hvort komnar í sölu eða unnið er að söluskráningu þeirra. Frá áramótum og til loka mars hefur Íbúðalánasjóður selt 36 eignir og voru þá 124 með samþykkt kauptilboð. Á sama tíma í fyrra seldi sjóðurinn 35 eignir. Íbúðalanasjóður hefur selt 611 fullnustueignir síðan í byrjun árs 2008, að því er fram kemur í mánaðarskýrslunni.

Hins vegar voru 324 íbúðir óíbúðarhæfar. Þær eru flestar á byggingarstigi og ekki fullbúnar. Nokkur hluti þeirra er svo óíbúðarhæfur vegna aldurs og ástands.

Hér má sjá töflu úr mánaðarskýrslunni sem sýnir staðsetningu eigna, þær flokkað eftir landshlutum og nýtingu eða ráðstöfun þeirra.