Kjartan Már Kjartansson var skipaður bæjarstjóri Reykjanesbæjar, árið 2014 og óhætt er að fullyrða að hann hefur síðan þá gengið í gegnum mikla sviptingartíma á svæðinu. Suðurnesin hafa á örskömmum tíma farið úr því að vera það svæði sem kom hvað verst undan bankahruninu yfir í að vera eitt blómlegasta atvinnusvæði landsins og nú er svo komið að fólk flykkist að og barist er um fasteignir í Reykjanesbæ.

Sveitarfélagið stendur þó enn frammi fyrir þeirri stóru áskorun að koma fjármálum sveitarfélagsins í lag en líkt og mikið var fjallað um í fjölmiðlum á sínum tíma leit á tímabili út fyrir að bænum yrði skipuð utanaðkomandi fjárhagsstjórn. Eins hefur mikið mætt á bæjarstjórnendum vegna starfsemi United Silicon í Helguvík, sem er að sögn Kjartans í engu samræmi við það sem fyrirtækið kynnti í upphafi. Segir hann að ef fyrirtækið bæti ekki úr starfsemi sinni muni bæjaryfirvöld fara fram á að verksmiðjunni verði lokað.

Menntaður fiðlukennari

Bakgrunnur Kjartans er um margt áhugaverður, hann er í grunninn menntaður fiðlukennari og starfaði sem tónlistarkennari í 18 ár, lengst af sem skólastjóri í Tónlistarskólanum í Keflavík. „Ég ákvað síðan að fara í frekara nám, þá fyrst í rekstrar- og viðskiptafræði en svo fór ég í MBA nám við Háskóla íslands og var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist þaðan árið 2002.

Ég ákvað í kjölfarið að breyta aðeins til og hætti sem skólastjóri og starfaði eftir það á nokkrum stöðum m.a. hjá IGS, í Latabæ og tvö ár hjá Samkaupum sem yfirmaður verslunarsviðs og staðgengill forstjóra sem þá var Sturla Eðvaldsson. Síðar var ég ráðinn til Securitas og stofnaði skrifstofu Securitas á Reykjanesi sem hefur síð- an vaxið og blómstrað en þar vinna nú á bilinu 60 starfsmenn. Ég hafði einnig setið í bæjarstjórn Reykjanesbæjar frá árinu 1998 til 2006 fyrir Framsóknarflokkinn og þegar bæjarstjórastarfið var auglýst til umsóknar fannst mér það mjög spennandi enda taldi ég mig þekkja innviði og rekstur bæjarfélagsins vel,“ útskýrir Kjartan.

Tókst að snúa rekstrinum við

Ef þú berð saman stöðu mála í Reykjanesbæ þegar þú tekur við bæjarstjórastarfinu við stöðu mála í dag, hverju hafið þið helst áorkað á þessum tímabili?

„Við höfum áorkað mjög mörgu. Við höfum t.d. náð að snúa rekstrinum við þannig að hann er kominn í plús. Okkur tókst að ná rúmum 1.700 milljónum króna úr úr A-hlutanum og út úr samstæðunni fengum við rúma 4 milljarða. Endatalan í bæjarsjóði er því jákvæð sem er stærsti árangurinn hingað til en við erum búin að straumlínulaga reksturinn og varðað leiðina áfram á þeim forsendum. Tekjur hafa aukist mikið í Reykjanesbæ, aðallega vegna hagstæðara ytri umhverfis, atvinnustig hefur batnað og fólk er að flykkjast til okkar sem síðan eykur tekjurnar. En aðalávinningurinn og árangurinn núna er að við erum að ná að halda í við kostnaðinn sem er ekki að hækka jafn mikið og tekjurnar þannig að til verði meiri afgangur. Það myndi ég halda að sé aðalárangurinn, en við erum hins vegar ekki búin að semja við kröfuhafana og viðræður við þá hafa gengið hægar en við hefðum viljað. Þetta er þó allt að færast í rétta átt og ég hef trú á því að við munum klára viðræður við kröfuhafana núna í haust. Það verð- ur líka meiri háttar árangur að ná að ljúka þeim. Við erum búin að vera svolítið mikið að horfa aftur á bak og þurfum að fara að horfa fram á veginn því verkefnin eru mörg og brýn. Fólkið streymir til okkar, íbúafjölgunin er gríðarleg og við þurfum að einhenda okkur í það verkefni.“

Viðtalið við Kjartan má lesa í heild sinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.