Fljótlega eftir að skilanefnd Glitnis tók til starfa í október 2008 gerði hún sér grein fyrir að langstærstu hagsmunir bankans lágu í Lúxemborg. Ástæðan var sú að þegar Glitnir var kominn í lausafjárvanda á árinu 2007 og 2008 safnaði bankinn saman mörgum bestu útlánum sínum á Íslandi og annars staðar og pakkaði þeim inn í svokölluð SPV-félög (Special Purpose Vehicle). Þetta voru þrjú félög, sem hétu Haf, Holt og Holm.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Árna Tómasson, formann Skilanefndar Glitnis, í Morgunblaðinu í dag.

Í Hafi voru upphaflega sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri félög. Í Holti voru fasteignafélög í Evrópu og hér heima. Í Holm voru alls kyns skuldabréf sem auðvelt var að eiga viðskipti með. Þessi útlán og SPV-félög voru sett að veði til Seðlabanka Evrópu í Lúxemborg og fékkst fyrirgreiðsla í peningum á móti.. Peningarnir voru greiddir frá Seðlabankanum til Glitnis í Lúxemborg og þaðan til Íslands.

„Okkur barst fljótlega til eyrna að Seðlabanki Evrópu, sem var orðinn hræddur um sín útlán, hefði ákveðið að taka þessar tryggingar til sín. Og ekki nóg með það heldur var bankinn að byrja að selja lánin á markaði til að fá upp í kröfur sínar,“ segir Árni í samtali við Morgunblaðið.

„Okkar fyrsta hugsun var að reyna að stöðva þetta því þarna var komið upp panik-ástand. Við komum þeim skilaboðum til yfirvalda í Lúxemborg að fresta sölunni meðan okkur gæfist tækifæri til að setja upp áætlun fyrir þá. Skilaboðin sem við fengum frá Lúxemborg voru þessi: Eina leiðin sem gæti orðið til þess að við íhuguðum málið væri að þið breytið láninu frá Glitni í hlutafé, en þá var Glitnir búinn að lána dótturfélaginu í Lúxemborg einn milljarð evra, sem eru í dag 160 milljarðar króna. Síðan verðið þið að láta okkur fá viðbótartryggingar. Annars þýðir ekkert að ræða þetta.“

Árni segir að skilanefndin hafi átt miklar andvökunætur þar sem hún velti fyrir sér hvort hún ætti að breyta 160 milljarða láni í hlutafé.

„Við fórum í gríðarlega útreikninga til að reyna að átta okkur á stöðunni. Á endanum settum við saman áætlun og óskuðum jafnframt eftir fundi með Yves Mersch, seðlabankastjóra í Lúxemborg, en bankinn er jafnframt hluti af Seðlabanka Evrópu. Hann féllst á að hitta okkur. Við fórum tveir til þessa fundar, ég og Kristján Óskarsson, í byrjun desember 2008. Við reyndum að fá einhvers konar stuðning frá íslenskum stjórnvöldum í málinu, en það hefur sennilega verið of mikið að gera hjá þeim. Alla vega mættum við til fundarins án þess að vera með neitt slíkt í höndunum. Seðlabankastjórinn hafði verið mjög óhress með Íslendinga í aðdraganda hrunsins og úr vöndu að ráða hvernig við ættum að tala við hann. Ég spurði hvort hann væri tilbúinn til að sýna okkur traust og gefa okkur tíma til að koma eignunum í verð á eðlilegum kjörum. Starfsmenn okkar í Lúxemborg höfðu unnið mjög góða undirbúningsvinnu og við vorum búnir að taka þá ákvörðun að breyta lánunum í hlutafé. Þannig fengum við stjórn á hlutunum í Lúxemborg og gátum farið að tala við þarlend yfirvöld. Fundurinn með seðlabankanum gekk afar vel og féllust þeir á að veita okkur fimm ára lán til þess að koma eignunum í verð.“

Þannig tókst skilanefndinni að semja um að stöðva sölu á lánasöfnum Glitnis. Það hefði þýtt að hægt hefði verið að gang að mörgum af stærstu fyrirtækjum Íslands.

Sem fyrr segir kemur þetta fram í löngu og ítarlegu viðtali við Árna í Morgunblaðinu í dag.

Árni Tómasson
Árni Tómasson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Árni Tómasson