*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Erlent 19. júní 2020 12:25

Mun ekki takast að fylla í sumarstörf

Eftirspurn námsmanna eftir sumarstörfunum hefur verið töluvert minni en búist var við.

Ritstjórn
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra
Haraldur Guðjónsson

Í byrjun maí tilkynnti Félagsmálaráðuneytið um 2,2 milljarða króna átaksverkefni til að fjölga um 3.400 tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar. Eftirspurn námsmanna eftir sumarstörfunum hefur verið töluvert minni en vísbendingar voru um að yrði, segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Alls höfðu sveitarfélög landsins heimild til að ráða í 1.700 störf í sumar, en ekki hefur tekist að ljúka ráðningu nema í tæplega 1.450 af þeim þar sem margir umsækjenda höfðu þegar fengið vinnu annars staðar. 

Þá er umsóknarfresti lokið hjá stofnunum ríkisins og lokatölurnar þar voru að 1.510 námsmenn sóttu um þau 1.500 störf sem í boði voru og sótti hver námsmaður um tæplega sjö störf að meðaltali. Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir að ekki sé búið að úthluta þessum störfum er ljóst að ekki muni takast að fylla í þau vegna þess að margir námsmenn eru þegar komnir með vinnu. 

„Nú þegar myndin er að skýrast er það mikið gleðiefni að tekist hefur að skapa það mörg störf að þau ganga ekki út. Við fórum af stað með 3.400 ný sumarstörf fyrir námsmenn í fyrstu lotu, og vorum tilbúin að bæta enn frekar í ef aðstæður kölluðu á það. Við sjáum hins vegar á þessum tölum að eftirspurn námsmanna í þessi störf er minni en gert var ráð fyrir, og því ekki þörf á að skapa fleiri tímabundin störf í sumar,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.