*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 11. febrúar 2019 14:14

Tóku 47 milljarða með grænum sköttum

Tekjur eyrnarmerktar vegakerfinu hafa nálega helmingast vegna vistvænna bíla, en einungis 19 milljarðar fóru í græn verkefni.

Ritstjórn
Loftmælingarstöðvar mengunarvarna eru víða í borginni.

Á árinu 2017 skiluðu svokallaðir grænir skattar 47 milljörðum króna í ríkissjóð að því er Samtök atvinnulífsins fjalla um í nýrri greiningu. Grænir skattar eru þá þeir skattar sem tengjast losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið, og má þar nefna vörugjöld á ökutæki og eldsneyti, auk beinna bifreiða- og eldsneytisgjalda, kílómetragjald og kolefnisgjald.

Bendir SA á að upphaflega hafi þessi skattheimta verið hugsuð til fjármögnunar á vegakerfinu, en græn skattheimta sé hins vegar hugsuð til að breyta hegðun , en ekki sem tekjuöflun fyrst og fremst. Segja samtökin því mikilvægt að ríkissjóður sé ekki háður tekjustreymi frá slíkum sköttum til fjáröflunar á grunnhlutverkum sínum, því þeir ættu að dragast saman eigi þeir að skila tilætluðum árangri.

Segja samtökin það því áhyggjuefni að ekki hafi verið haldið nákvæmt bókhald yfir framlög ríkisins til verkefna sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda eða bættra loftgæða almennt, þrátt fyrir þann rökstuðning sem er fyrir þessari skattheimtu.

19 milljarðar í umhverfisverkefni

Þannig hafi ríkið einungis eytt 17 milljörðum í umhverfismál á árinu 2017, en undir þá tölu koma þó einungis útgjöld á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þess utan megi rekja um 2 milljarða minni skatttekna til undanþága rafmagns-, vetnis- og tengitvinnbíla frá virðisaukaskatti.

Hafa samtökin áhyggjur af því að hvati geti skapast til að sveipa grænni hulu yfir nýja skatta vegna þess hve umhverfismál séu mikið í deiglunni, jafnvel þó þeir leiði í raun ekki til umhverfisvænni hegðunar af hálfu neytenda eða fyrirtækja.

„Það má finna dæmi þess á Norðurlöndunum þar sem nýir skattar hafa verið innleiddir og kynntir sem grænir skattar en hafa í raun ekki verið annað en hrein tekjuöflun fyrir hið opinbera,“ benda samtökin á og vísa í sænska rannsókn máli sínu til stuðnings.

„Sannir grænir skattar eru hannaðir með það að leiðarljósi að hvetja til breyttrar hegðunar en ekki til tekjuöflunar fyrir hið opinbera. Það liggur enda í eðli þessara skatta að skili þeir tilætluðum árangri munu þeir skila takmörkuðum skatttekjum til hins opinbera til framtíðar litið. Fjölgun vistvænna bifreiða er skýrt dæmi um það.“

Tekjur eyrnarmerktar vegakerfinu nálega helmingast

Þannig hafi orðið tólfföldum á fjölda vistvænna bíla frá árinu 2010, á sama tíma og tekjur ríkisins af eldsneytis- og vörugjöldum á hverja bifreið hafi dregist saman um 46% á föstu verðlagi. Á sama tíma hafi hins vegar fjárþörf vegakerfisins ekki dregist saman og jafnvel aukist ef eitthvað er.

Því sé augljóst að ekki sé unnt að treysta á grænt tekjustreymi til að fjármagna ríkisútgjöld til framtíðar því það sé tímabundið. Eðlilegra væri að nýta það til að lækka skatta, þá sérstaklega á vistvæna starfsemi, og þá heildaráhrifin á tekjur ríkissjóðs af grænni skattheimtu engin.

„Það kæmi jafnframt í veg fyrir að grunnhlutverk ríkissjóðs, sem ekki er útlit fyrir að muni dragast saman í náinni framtíð, séu fjármögnuð með tekjustreymi sem samkvæmt hönnun mun ekki standa undir útgjöldunum þegar fram líða stundir.“