Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, gagnrýnir að skuldabréf í bandaríkjadollurum hafi verið gefin út til þess að greiða niður lán frá Norðurlöndunum sem báru lægri vexti en greiða þarf af dollarabréfunum. Þrátt fyrir að Norðurlandalánin hafi verið á gjalddaga á árunum 2016-2018 var ákveðið að greiða strax inn á þau.

Vigdís hefur lagt fram fyrirspurn til fjármálaráðherra vegna þessa. „Hvað þarf íslenska ríkið að greiða aukalega á ári í vaxtakostnað af erlendum lánum vegna þess að skuldabréfaútgáfa upp á einn milljarð bandaríkjadala á 6% vöxtum var nýtt til að greiða niður lán Norðurlandanna sem voru á gjalddaga á árunum 2016–2021 og báru meðalvexti upp á 3,2%?“ segir í fyrirspurn Vigdísar.

Í umfjöllun Ríkisendurskoðunar um lánin segir að ljóst sé að mismunur á vöxtum lánanna sé allnokkur. Þannig beri dollaralánið 5,875% fasta vexti á meðan vextir lánanna frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð voru hæstir í upphafi árs 4,137% og lækkuðu í 3,537% um mitt ár, í 3,402% í lok september og síðan í 2,972% þann 28.12.2012. Lánið frá Færeyjum bar fasta 2,17% vexti.

Í svari fjármálaráðuneytis við fyrirspurn Ríkisendurskoðunar segir að aðgengi ríkissjóðs að erlendum mörkuðum sé m.a. ein af forsendum fyrir afnámi gjaldeyrishafta auk þess sem skuldabréfaútgáfur ríkissjóðs liðki fyrir fjármögnun annarra innlendra aðila eins og fjármála- og orkufyrirtækja. Með skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadollurum árið 2011 hafi verið tekið mikilvægt skref inn á alþjóðamarkaði og hafi aðgengi að alþjóðamörkuðum enn frekar verið styrkt með skuldabréfaútgáfunni í maí 2012. Til að viðhalda aðgangi að mörkuðum sé nauðsynlegt að vera sýnilegur þar með reglulegu millibili.