Síðasta ríkisstjórn flaskaði á því að taka á málum þeirra sem voru með verðtryggð lán, segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann sagði í samtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að samkomulag um slíkar aðgerðir  hafi ekki náðst á milli þáverandi stjórnarflokka. „Pólitíkin snýst enn um þetta,“ sagði hann.

Hann sagði að núverandi ríkisstjórn hefði farið hægt af stað en náð sér á strik þegar hún kom með tillögur um skuldaniðurfellingarnar í lok nóvember. Það hafi verið sanngjarnt og jákvætt skref þó þær hafi verið langtum minna en það sem Framsóknarflokkurinn hafi lofað.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var ásamt Össuri viðmælandi í Sprengisandi. Þau voru sammála um að breytingar væru að verða að flokkakerfinu. Össur sagði að nýir flokkar, eins og Píratar, væru að koma fram á sjónarsviðið sem hefðu átt að ganga að 8-12% af heildarfylgi sem gefnu.

Hanna Birna sagði að fólk þyrfti að aðlagast pólitíkinni á nýjan hátt. „Þetta er ekki átakamiðaður kúltúr miðaldra karlmanna þar sem allt snýst um að upphefja sig á kostnað annarra,“ segir hún.