Engu tilboði var tekið í útboði Landsbankans á sértryggðum óverðtryggðum skuldabréfum til 3 ára, LBANK CB 25, í síðustu viku en tvö tilboð upp á samtals 200 milljónir bárust á ávöxtunarkröfunni 6,94-6,97%.

Tilboðum upp á tæpa 1,2 milljarða var hins vegar tekið í 5 ára skuldabréfaflokkinn CB 27 á kröfunni 6,55-6,6%.

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, lét hafa eftir sér nýlega í viðtali við Viðskiptablaðið að útboðskjör slíkra bréfa skiptu bankann mestu máli við ákvörðun fastra útlánavaxta.

Hreiðar sagði ennfremur að fastir óverðtryggðir útlánavextir bankans til fasteignakaupa þyrftu að óbreyttu að hækka, þar sem krafa sértryggðu bréfanna væri orðin hærri en lánsvextirnir.

Ávöxtunarkrafa CB 25 rauf 7% múrinn á fimmtudag þegar hún náði 7,02%, og hefur verið óbreytt síðan.

Hvorugur hinna viðskiptabankanna tveggja hefur selt sambærileg bréf nýverið, en Íslandsbanki seldi 5 ára bréfin ISB CB 27 fyrir ríflega 400 milljónir króna fyrr í mánuðinum á kröfunni 6,54%, sem hefur haldist svo til óbreytt síðan.