Eigendur BTC hafa ekki staðið við fyrirheit um fjárfestingar í félaginu. Þvert á móti hafa þeir tekið umtalsverða fjármuni út úr því. Þetta kom fram í samtali búlgörsku útvarpsstöðvarinnar Info radio við Grozdan Karadzhov, fyrrverandi stjórnarmanns félagsins, í gær. Aðrir búlgarskir fjölmiðlar hafa tekið fréttina upp.

Meðal ákvæða þeirra sem giltu þegar BTC var einkavætt var að nýir eigendur skyldu fjárfesta fyrir umtalsverðar fjárhæðir í félaginu. Það vill Grozdan Karadzhov meina að hafi ekki verið gert. Þess í stað hafi mikilir fjármunir verið teknir út úr BTC, svo nemur hundruðum milljóna leva.

"Það hefur ekki verið fjárfest fyrir eina einustu levu í félaginu undanfarin þrjú á," sagði Karadzhov í samtalinu og bætti við að á sama tíma hefðu hundruð milljóna leva verið teknar út úr félaginu.

Þess ber að geta að einkavæðing BTC hefur frá upphafi verið pólitískt bitbein í Búlgaríu og hafa andstæðingar hennar harðlega gagnrýnt ýmsa þætti hennar.

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur AIG Global Investment Group undirritað kaupsamning við Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, og þannig tryggt sér 65% kauprétt í BTC sem félagið á í gegnum Viva Ventures.

Í upphafi árs 2006, skömmu eftir einkavæðingu félagsins, öðlaðist Novator rétt til að eignast allt hlutafé Viva Ventures, sem staðsett er í Vín, en félagið átti þá 65% hlut í BTC. Viva Ventures greiddi 230 milljónir evra fyrir hlutinn sumarið 2004 eða um 20 milljarða króna. Síðar keypti Novator 25% hlut til viðbótar og tryggði sér þannig 90% í félaginu.