Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna er tilbúið til að taka í notkun umtalsverðan hluta af olíubirgðum landsins sem nýtast eiga í neyð í kjölfar árásar á stærstu olíuvinnslustöð heims í Sádi Arabíu.

Árásin, sem Houthi bandamenn Írans í borgarastyrjöldinni í Yemen framkvæmdu með drónum á laugardagsmorgun, hamlar helmingnum af framleiðslugetu Sádi Arabíu, eða sem nemur 5% af allri olíuframleiðslu heims. Rick Perry, áður ríkisstjóri í Texas, og nú orkumálaráðherra segir Bandaríkin tilbúin til að opna olíubirgðirnar ef þörf krefur til að koma í veg fyrir truflanir á olíumörkuðum.

Birgðirnar gætu nýst í 110 daga

Olíubirgðirnar nema um 630 milljónum olíufata, en Prinsinn Abdulaziz bin Salman, orkumálaráðherra Sádi Arabíu segir árásina hafa áhrif á framleiðslugetu um 5,7 milljónir fata af olíu og gasi á dag, svo birgðirnar ættu að geta nýst í 110 daga ef þurfa þætti. Í nýjustu tölum OPEC var framleiðsla Sádi Arabíu 9,8 milljónir fata á dag.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa stjórnvöld í Sádi Arabíu undirbúið það sem yrði stærsta hlutafjárútboð sögunnar þegar hluti Aramco yrði sett á hlutafjármarkað, en áætlanir stjórnvalda um það hafa verið frestað.

Íranir og Írakar neita þó rekja megi 100 árásir til Írana

Houthi uppreisnarmennirnir lýstu yfir ábyrgð á árásinni, en þeir sögðu að 10 drónar hefðu verið notaðir til að ráðast á olíuvinnsluna sádi arabíska ríkisolíufélagsins Aramco í Abqaiq og Khurais. Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir árásina á ábyrgð Íran sem styður við Houthimenn í borgarastríðinu og sagði "engar vísbendingar um að árásin kæmi frá Yemen"

Þvert á móti virðist sem rekja megi slóð árásarmannanna til Írak, sem er mun nær árásarsvæðinu heldur en Yemen sem er hinum megin við Sádi Arabíu. Sagði Pompeo árásirnar á olíubirgðir heims af hálfu stjórnvalda í Íran af áður óþekktri stærðargráðu, en stjórnvöld í "Tehran eru á bakvið nærri 100 árásir á Sádi Arabíu".

Írönsk stjórnvöld hafa hafnað því að bera ábyrgð á árásunum og írösk stjórnvöld neita því að landsvæði þeirra hafi verið notað til árásanna. Árásin nú kemur einungis nokkrum dögum eftir að Donald Trump forseti Bandaríkjanna tók við afsögn John Bolton , sem þjóðaröryggisráðgjafa, en hann hefur löngum verið írönsku klerkatjórninni mótdrægur.

Hér má sjá fleiri fréttir um olíuframleiðslufyrirtæki Sádi Arabíu, Aramco: