Fjárfestar tóku nýjustu tíðindum af vinnumarkaði í Bandaríkjunum afar vel í dag og ruku hlutabréfavísitölurnar Dow  og S&P 500 upp um rúmlega 1% og í hæstu hæðir við upphaf viðskiptadagsins vestanhafs. Tölurnar sýndu að ívið færri sóttu um atvinnuleysisbætur í fyrstu viku aprílmánaðar en áður. Fækkunin nemur 42 þúsund umsóknum. Þessi þróun er þvert á spár sem gerðu ráð fyrir því að atvinnulausum myndi halda áfram að fjölga. Atvinnuleysi mælist nú 7,6% í Bandaríkjunum.

Á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal segir að atvinnuleysistölur sveiflist nokkuð á vorin. Páskafrí og lokun skóla yfir hátíðirnar valdi því að starfsfólk í mötuneytum skóla og ökumenn skólabíla verði af launum og sæki þeir því um atvinnuleysisbætur tímabundið.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan rauk við þetta til skamms tíma í 14.88,53 stig og S&P 500-vísitalan fór í 1.597,35 stig. Þær höfðu aldrei verið hærri innan viðskiptadagsins. Hækkunin gekk að nokkru leyti til baka eftir því sem á leið daginn.