„Venjulega tjái ég mig ekki um einstakar fjárfestingar en ég get staðfest að það er rétt, sem kom reyndar fram í yfirlýsingu frá stjórnarformanni Stíms um helgina, að við áttum lítinn hlut í félaginu og áttum stjórnarmann um tíma," sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

„Þess vegna var heimilisfangið skráð hjá okkur og þannig þvældumst við inn í þessa umræðu. Eftirá kann að þykja fráleitt að einhver hafi búist við að gengi Glitnis eða FL Group myndi hækka en það var engu að síður ástæðan fyrir hlutafjárþátttöku okkar. Við afskrifuðum síðan okkar hlut að fullu árið 2007, eftir að langsóttara varð að bréfin myndu hækka."

- Viðskiptin með Stím er hluti þess sem fólk á erfitt með að skilja?

„Ég skil það mjög vel ef uppleggið er eins og haldið hefur verið fram, sem ég á bágt með að trúa. Mér finnst hins vegar eðlilegt að kannað verði hvernig til þessa máls var stofnað í upphafi og dómur komi frá til þess bærum aðilum. Ef menn hafa gerst sekir um eitthvað þá verður að leiða það í ljós og ég treysti eftirlitsaðilum til að gera það."

Nánar er rætt við Þorvald í Viðskiptablaðinu í dag.