Í dag hefjast tökur á Spaugstofunni. Leikarar Spaugstofunnar í vetur eru Örn Árnason, Pálmi Gestsson, Karl Ágúst Úlfsson og Sigurður Sigurjónsson. Fimmti maðurinn í hópnum verður Þórhallur Sigurðsson eða Laddi.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Laddi bregða sér í hlutverk hinnar ástsælu persónu Doktor Saxa í dag þegar tökur hefjast. Ekki fengust nánari upplýsingar um hvar Doktor Saxi verður nákvæmlega á vappi en upptökur munu fara fram um alla borg.

Fyrsti þáttur vetrarins verður sýndur á Stöð 2 á laugardaginn og það er Sagafim sem framleiðir sjónvarpsþættina. Spaugstofan hefur verið sýnd með hléum í Sjónvarpinu og á Stöð 2 síðan 2. janúar 1989 þegar hún hóf göngu sína undir nafninu 89 á stöðinni.