Borgaryfirvöld í Tókýó hyggjast koma á fót sérstöku svæði í borginni sem verður hannað sérstaklega með það að markmiði að laða að erlenda fjárfestingarbanka. Um er að ræða hin eftirsóttu svæði Marunouchi og Nihonbashi í Tókýó. Meðal annars er gert ráð fyrir því að byggðar verði fjölmargar rúmgóðar íbúðir, tungumálaskólar reistir og veitingastaðir sem yrðu opnir eftir miðnætti.

Yuji Yamamoto, ráðherra fjármálaþjónustu í ríkisstjórn Japans, sagði í ræðu sem hann félt fyrir bandaríska viðskiptaráðið (e. American Chamber of Commerce) að markmið stjórnvalda væri að efla stöðu Tókýóborgar sem miðstöðvar alþjóðlegs fjármálalífs í heiminum, þar sem yrði eftirsótt fyrir erlend fyrirtæki að koma á fót starfsemi. En að undanförnu hefur mikið borið á því að erlend fjámálafyrirtæki hafi afskráð félög sín af kauphöllinni í Tókýó.

Á því svæði sem borgaryfirvöld í Tókýó vilja endurhanna fyrir erlend fyrirtæki eru nú þegar Japansbanki og Kauphöllinn með starfsemi. Yamamoto vill að slakað verði á núverandi byggingar- og skipulagsreglum sem þar gilda. Slíkt myndi gera verktökum auðveldara fyrir að ráðast í það að reisa skrifstofubyggingar, íbúðarblokkir, skóla og sjúkrahús sem yrðu sérstaklega sniðin að óskum og þörfum þeirra sem starfa hjá erlendu fyrirtækjunum á svæðinu. Yamamoto benti á nýju Marunouchi bygginguna sem ákveðna fyrirmynd í þessum efnum, en hún er opin allan sólarhringinn - sem er óvenjulegt í Japan - og hefur veitingastaði sem eru einnig opnir eftir miðnætti. Sjötíu prósent þeirra sem leigja íbúðir í byggingunni eru útlendingar.

Ummæli Yamamoto um að hann teldi að það væri nauðsynlegt fyrir japönsk stjórnvöld að huga í auknum mæli að því að bæta viðskipta- og rekstrarumhverfi fyrir erlend fyrirtæki, endurspegla þær vaxandi áhyggjur sem eru til staðar í Japan um að Tókýó sé smátt og smátt að missa stöðu sína sem alþjóðleg fjármálaborg. Ástæðan fyrir þeirri þróun er einkum rakin til of hárrar skattlagningar og flókinnar lagasetningar um starfsemi fjármálafyrirtækja. Erlendir bankar hafa lengi haldið því fram að háir fyrirtækjaskattar í Japan hafi staðið í vegi fyrir því að þeir geti skráð starfsemi sína þar. Yamamoto viðurkenndi óbeint að þetta væri vandamál, þegar hann benti á að sá öflugi efnahagsuppgangur sem hefur verið á Írlandi undanfarin ár sé að hluta til vegna þess að skattar á fyrirtæki hafi á sínum tíma verið lækkaðir verulega þar í landi.

Stutt er síðan að Robert Feldman, hagfræðingur hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley í Tókýó, skrifaði í nýlegri skýrslu að sú staðreynd að erlend félög séu að færa starfsemi sína frá Tókýó til Hong-Kong, London og Singapúr, hafi vakið japanska ráðamenn til umhugsunar um þessa nýju stöðu sem runnin er upp. Engu að síður þarf meira til heldur en að koma á fót sérstökum svæðum fyrir erlend fyrirtæki í Tókýóborg ef Japanar hafa hug á því að snúa við þessari þróun.