Á fyrstu árum Murr ehf. lánaði Einar Páll, sem í fyrstu átti 42,5% hlut í félaginu, því fyrir ýmsum kostnaði. Meðal annars hafði hann staðið straum af útgjöldum við gerð markaðskönnunar, staðið skil á gjaldföllnum lífeyrissjóðsgjöldum og lánað félaginu fé í litlum skömmtum til að halda því á floti. Sumarið 2013 hafi honum orðið ljóst að engin rekstrarleg rök stæðu til þess að gera þetta allt persónulega enda hefði hann þá misst af því hagræði sem fylgir því að hafa kröfuna innan einkahlutafélags. Varð það úr að hann seldi einkahlutafélagi sínu, Giggs ehf., kröfuna, rétt tæpar 46 milljónir króna miðað við stöðu í árslok 2012, á nafnvirði.

Að mati ríkiskattstjóra (RSK) var umræddur gjörningur nokkuð undarlegur í ljósi fjárhagslegrar stöðu Murr á þessum tíma. Sala á kröfunni til einkahlutafélags hefði tæplega verið gerð í hagnaðarskyni fyrir félagið enda talsverður vafi uppi um hvort hún myndi innheimtast. Í raun hefði nær verðlaus krafa verið seld milli tengdra aðila og flest benti til þess að með því hefði fjármunum verið úthlutað úr einkahlutafélaginu í andstöðu við reglur félagaréttarins. Engin trúverðug viðskiptarök hefðu verið færð fyrir gjörningnum og hann því að engu virðandi í skattalegu tilliti.

Þá niðurstöðu kærði Einar Páll til yfirskattanefndar. Taldi hann meðal annars að málsmeðferð RSK hefði ekki verið eins og best verður á kosið og að embættið hefði trassað rannsóknarskyldur sínar. Þá hafi embættið ekki fylgt fyrirmælum tekjuskattslaganna um að telja honum til tekna mismun á matsverði og viðskiptaverði fjárkröfunnar. Eðlilegt verð krafnanna hefði ekki verið leitt í ljós og sá annmarki ætti að leiða til ómerkingar úrskurðarins.

Enn fremur hafi legið fyrir, skömmu áður en umrædd yfirfærsla átti sér stað, mat markaðarins á virði hlutafjár Murr ehf. Fyrir nefndina hafi meðal annars verið lagður tölvupóstur frá framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða en hann hafi metið virði félagsins á bilinu 200 til 300 milljónir króna. Það ætti að kippa stoðum undan þeirri fullyrðingu RSK að krafan hefði verið verðlaus. RSK taldi á móti að upplýsingar úr téðum tölvupóstsamskiptum hefðu „verið svo lausar í reipunum“ að réttara væri að líta til ársreikninga félagsins.

Hyggst höfða mál

Í niðurstöðu yfirskattanefndar er tekið fram að vissulega hvíli rannsóknarskylda á skattayfirvöldum. Sú skylda hvíldi aftur á móti einnig á kæranda að „leggja sitt af mörkum til að upplýsa málið“. Nefndin fjallaði nokkuð um fyrrgreind tölvupóstssamskipti en þau áttu sér stað 16. apríl 2014, það er skömmu áður en Murr var tekið til skipta.

„Þá er ástæða til að taka fram, vegna sjónarmiða kæranda, að út af fyrir sig er ekki tilefni til að draga í efa að verðmæti hafi verið fólgin í eignum [Murr] ehf. á greindum tíma, svo sem vegna vörubirgða, framleiðslutækja og viðskiptavildar, og að áhugi ótengdra aðila á aðkomu að félaginu kunni að hafa verið fyrir hendi allt til þess er útséð varð um lyktir mála vegna framkominnar kröfu um gjaldþrotaskipti. Sú staðreynd þykir hins vegar ekki fá haggað mati á þeim ráðstöfunum á árinu 2013 sem um er deilt sem fólust eins og fyrr greinir einvörðungu í kaupum [Giggs] ehf. á almennri fjárkröfu á hendur [Murr] ehf.,“ segir í úrskurðinum.

Var það mat nefndarinnar að það hefði staðið Einari nær að færa sönnur á að raunverulegt virði hefði verið í félaginu. Nefndin féllst á það með RSK að slík óvissa hefði verið um heimtur kröfunnar að „engin ástæða [væri] til þess að til viðskiptanna hefði komið milli ótengdra aðila“. Var niðurstaða RSK staðfest af þeim sökum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .