*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 19. apríl 2019 18:31

Töldu Arnfríði vanhæfa vegna Vals

ÞG Verktakar töldu Arnfríði Einarsdóttur vanhæfa til að dæma í máli sínu þar sem hún er gift miklum Valsmanni.

Ritstjórn
Brynjar er mikill Valsari en hér má sjá hann að loknum leik, eða sennilega fyrir leik, með „old boys“ liði félagsins.

ÞG Verktakar ehf. töldu að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, hefði verið vanhæf til að dæma í máli þeirra gegn Landhlíð ehf. Fjöldi hefur sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar á þeim grunni en rök verktakans eru talsvert önnur en venjan hefur verið. 

Málsaðilar deila um munnlegt samkomulag um ætlaða vinnu og útlagðan kostnað ÞG Verktaka á Híðarenda 1-7. Félagið hefur krafið Landhlíð um tæpar 50 milljónir króna vegna þessa. Hvorki héraðsdómur né Landsréttur féllst á kröfu ÞG Verktaka. 

Fyrirtækið sótti því um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Var það meðal annars gert á þeim grunni að Arnfríður hafi verið vanhæf til að taka í sæti í málinu vegna tengsla maka síns við Landhlíð. 

Landhlíð ehf. er í egis Hlíðarfótar ehf. sem aftur á móti er í eigu íþróttafélagsins Vals. Eiginmaður Arnfríðar er þingmaðurinn Brynjar Níelsson en sem kunnugt er þá er Brynjar gallharður Valsari, lék á árum áður knattspyrnu í meistaraflokki með liðinu auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir það. Til marks um það var frumburður þeirra hjóna gerður að félaga í Val nánast um leið og hann fæddist en sagt var frá því í Valsblaðinu árið 1989

Eins og alkunna er hefur verið mikið deilt um skipan dómara við Landsrétt undanfarin ár og málið tæmt öll dómstig hér heima og ratað til Mannréttindadómstóls Evrópu. ÞG Verktakar byggðu einnig á því að ranglega hefði verið staðið að skipan hennar og að endingu á að málið varðaði stofnun og túlkun samnings og hefði því verulegt fordæmisgildi. 

Í málskotsákvörðun sinni vék Hæstiréttur ekkert að álitaefnum er varða skipan Arnfríðar og lét tengingu Brynjars við Val einnig ósnerta. Hins vegar var fallist á að álitaefnin um túlkun og stofnun samnings gætu haft fordæmisgildi og því fallist á að taka málið fyrir.