Allt stefnir í að alls 12 flokkar bjóði fram í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í vor. Verði það raun­in munu borg­ar­bú­ar geta valið milli fleiri framboða en nokkru sinni fyrr. Sveitarstjórnarkosningar fara fram þann 26. maí.

Umræddir flokkar eru: Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG), Píratar, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn, Alþýðufylkingin, Íslenska þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn. Flokkarnir eru þó komnir mislangt í undirbúningi sínum.

Björt framtíð mun ekki bjóða fram í borginni í maí. Sömu sögu er að segja af Dögun og Húmanistaflokknum.

Aðeins sex af þeim flokkum sem stefna á framboð í borginni í vor buðu fram í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2014. Alls verða því sex ný framboð – Viðreisn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn.

Samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið 15. febrúar til 11. mars er Samfylkingin stærst í borginni með tæp 30% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fylgir þar fast á eftir með 29% fylgi. Fylgi annarra flokka er sem hér segir: Píratar (13%), VG (10,3%), Viðreisn (6,1%), Miðflokkurinn (4%), Flokkur fólksins (3,1%) og Framsóknarflokkurinn (2,9%). Aðrir flokkar komust ekki á blað í könnuninni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .