Til viðbótar við alla átta flokkana sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavík fyrir fjórum árum stefna fjórir nýir flokkar á framboð í höfuðborginni í vor að því er Morgunblaðið greinir frá.

Þorkell Helgason stærðfræðingur segir að hægt verði að ganga út frá því að fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 þýði að 4,2% atkvæða dugi til að fá borgarfulltrúa en árið 2014 komust Píratar inn með 5,9% atkvæða. „En síðan getur listi skriðið inn með mann út á minna fylgi. Það fer eftir því hvernig atkvæði dreifast á aðra flokka,“ segir Þorkell.

Í dag sitja í borgarstjórn fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og flugvallarvina og einn óháður fulltrúi í minnihluta og meirihlutinn samanstendur af fulltrúum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.

Til viðbótar er líklegt að Miðflokkurinn, Viðreisn, Flokkur fólksins og jafnvel Sósíalistaflokkurinn Íslands bjóði sig fram. Aðrir sem ekki komust inn síðast eins og Alþýðufylkingin, stefna einnig á framboð og segir Þorvaldur Þorvaldsson formaður síðastnefnda flokkinn listann tilbúinn í mars.

Skorið úr um leiðtogaefni Sjálfstæðismanna á laugardag

Samfylkingin verður með flokksval hinn 10. febrúar næstkomandi og Sjálfstæðisflokkurinn er með leiðtogaprófkjör á laugardaginn. Þar er slagurinn sagður fyrst og fremst vera á milli Eyþórs Arnalds fyrrum leiðtoga flokksins í Ölfusi og Áslaugar Friðriksdóttur borgarfulltrúa samkvæmt heimildarmönnum Viðskiptablaðsins.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi gæti þó komið þar sterkur inn og en þeir Eyþór eru taldir berjast mikið til um sama fylgið, en einnig eru Vilhjálmur Bjarnason og Viðar Guðjohnsen í framboðinu.