Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og flugvallarvinir hafa verið í minnihluta síðan í kosningunum. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er staða flokkanna gjörólík. Sjálfstæðisflokkurinn bætir aðeins við sig á sama tíma og Framsókn tapar miklu fylgi. Þann 27. janúar fór fram leiðtogakjör í Sjálfstæðisflokknum, þar sem Eyþór Arnalds bar sigur út býtum.

Þó að flokkurinn hafi töluvert verið í umræðunni í janúar er erfitt að fullyrða nokkuð um það hvaða þýðingu koma Eyþórs inn í borgarmálin hefur haft fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn sækir í sig veðrið frá því í kosningunum 2014. Þá fékk hann 25,7% en nú mælist hann með 29,1%. Í júníkönnuninni mældist flokkurinn með 26,8%. Framsókn hlaut góða kosningu árið 2014 þegar flokkurinn fékk 10,7%. Í kosningunum 2010 fékk flokkurinn til að mynda aðeins 2,7% og árið 2006 fékk hann 6,1%. Miðað við könnunina er flokkurinn í lægð því hann mælist einungis með 2,9%. Í könnuninni í júní í fyrra mældist Framsóknarflokkurinn með 6,9%.

Tólf flokkar í framboð?

Nú stefnir í að metfjöldi framboða taki þátt í borgarstjórnarkosningunum. Árið 2014 voru átta flokkar í framboði eða Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Björt Framtíð, VG, Framsókn og flugvallarvinir, Píratar, Dögun og Alþýðufylkingin. Dögun mælist með 0,3% í könnun Gallup en framkvæmdastjórn flokksins tilkynnti í fyrradag að Dögun tæki ekki þátt í ár en hins vegar eru fimm aðrir flokkar að vinna að framboði.

Þeir eru Viðreisn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkur Íslands og Frelsisflokkurinn. Ef þessir flokkar bjóða fram verða samtals 12 flokkar í framboði í borgarstjórnarkosningunum í maí. Af þeim fimm flokkum sem vinna að framboði komast þrír á blað í könnuninni. Viðreisn mælist með 6,4%, Flokkur fólksins mælist með 4,8% og Miðflokkurinn 1,1%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .