Embætti sérstaks saksóknara hefur nú til rannsóknar tólf mál þar sem grunur leikur á innherjasvikum. Málin tengjast með einum eða öðrum hætti starfsemi föllnu bankanna þriggja. Kom þetta fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Málin eru ekki langt komin í rannsókn að því er Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði við fréttastofu Stöðvar 2 og vildi hann ekki tjá sig um málin að svo stöddu eða skýra nánar efnisatriði þeirra.

Embætti sérstaks saksóknara, sem sameinaðist efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra nýverið, hefur nú til rannsóknar um 200 mál. Þar af komu 86 mál frá efnahagsbrotadeildinni. 90 mál voru þá fyrir til rannsóknar hjá embættinu, sem öll tengdust falli bankanna. Á undanförnum vikum og mánuðum hafa slitastjórnir, skiptastjórar og skattayfirvöld vísað 24 málum til embættisins vegna gruns um lögbrot. Þau mál eru nú til rannsóknar hjá embættinu, að því er sagði í fréttinni.