Tólf mánaða hagnaður breska súkkulaði-framleiðandans Thorntons fyrir skatta dróst saman um 36% í 5,2 milljónir punda (696 milljónir króna) úr 8,1 milljón punda á sama tíma í fyrra.

Tímabilið sem um ræðir endaði þann 24. júní á þessu ári og nær yfir 52 vikur.

Ástæðan fyrir samdrættinum er heitt sumar í Bretlandi, sem stuðlaði að minni sölu, segir í tilkynningu Thorntons til kauphallarinnar í London.

Hins vegar hækkaði gengi hlutabréfa félagsins um 4,1% í 139 pens á hlut í morgun og segja sérfræðingar að enn séu getgátur um að Baugur hafi áhuga á að kaupa félagið.

Forstjóri félagsins, Peter Burdon, hefur ákveðið að hætta störfum hjá félaginu en situr þangað til að nýr forstjóri verður ráðinn.