© Getty Images (Getty)
Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í ágúst er 380,9 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,26% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 361,2 stig og hækkaði um 0,36% frá júlí af því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

Sumarútsölur eru víða um garð gengnar og hækkaði verð á fötum og skóm um 5,5% (vísitöluáhrif 0,29%). Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,8% (0,12%) og verð á bensíni og olíum lækkaði um 1,7% (-0,10%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,0% og vísitalan án húsnæðis um 4,7%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,9% sem jafngildir 3,5% verðbólgu á ári (2,7% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í ágúst 2011, sem er 380,9 stig, gildir til verðtryggingar í október 2011. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 7.521 stig fyrir október 2011.