Vegna bakábyrgðar og skuldbindinga Reykjavíkurborgar gagnvart Orkuveitunni var ákveðið í júlí síðastliðnum að tíu til tólf milljarðar króna yrðu til taks í A-hluta borgarsjóðs.

Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri borgarinnar segir að upphæðin sé tilkomin vegna mats á markaðsáhættu Orkuveitunnar. „Í versta falli þarf þessi upphæð að vera til taks á árinu 2010. Lausafé borgarinnar er í dag um 17 milljarðar króna,“ segir Birgir Björn.

„Á síðasta ári var ákveðið að fjármálaskrifstofa borgarinnar gerði fjárhagsáætlun vegna bakábyrgðar gagnvart Orkuveitunni. Í júlí síðastliðnum voru samþykktar tillögur á grundvelli þessarar vinnu og tóku þær meðal annars til lágmarksstöðu lausafjár sem borgin þarf að hafa aðgang að.“