Tólf milljarða króna viðskipti voru með hlutabréf í Marel í dag. Samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar keypti kjölfestuhluthafinn, Eyrir Invest, rúm þrjú prósent í fyrirtækinu til viðbótar og er eftir sem áður stærsti hluthafinn með 34,7% eignarhlut. Bréfin keypti Eyrir af Horn fjárfestingarfélagi, dótturfélagi Landsbankans, sem hefur selt öll sín bréf í Marel.

Fyrir viðskiptin átti Horn 13,8% hlut í Marel samkvæmt skráningu 7. mars síðastliðinn og var annar stærsti hluthafinn á eftir Eyri. Engar aðrar tilkynningar hafa enn sem komið er borist kauphöllinni þannig að ekki er vitað hver keypti í Marel ásamt Eyri.

Í Viðskiptablaðinu í dag kom fram að Horn hefði kynnt þennan fjárfestingarkost fyrir lífeyrissjóðum. Því eru lífeyrissjóðir í hópi kaupenda nú samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fyrir áramót átti Horn um 22% í Marel og hefur minnkað við sig síðan þá. Nú er Eyrir eini hluthafinn með yfir 10% eignarhlut. Stærstu lífeyrissjóðirnir í Marel fyrir þessi viðskipti voru Lífeyrissjóður verslunarmanna, 5,8%, Lífeyrissjóðir Bankastræti, 4,1%, Gildi, Stafir og Sameinaði lífeyrissjóðurinn með um 2,3% hver og Festa lífeyrissjóður með 1,5%.

Eins og áður segir er ekki vitað hvaða lífeyrissjóðir keyptu af Horn fjárfestingarfélagi. Talið er líklegt að einhverjir núverandi hluthafar hafi bætt við auk þess sem stofnanafjárfestar hafi verið boðið bréfin til kaups.