Tólf sinnum kom til tals að sameina Straum-Burðarás og önnur fjármálafyrirtæki, jafnt innlend sem erlend, að því er kemur fram á heimasíðu Björgólfs Thors Björgólfssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Straums. Markmið þessara viðræðna var að styrkja eiginfjárstöðu og möguleika sameinaðra fyrirtækja til fjármögnunar auk þess að draga úr áhættu og hagræða í rekstri.

Ekki kemur fram hversu langt viðræðurnar náðu hverju sinni en oftast var lagt til að sameina Straum og Landsbankann þar sem Björgólfsfeðgar fóru með kjölfestuhlut, en sem kunnugt er skiptu fyrirtækin með sér Burðarási árið 2005. Fram kom í viðtali hans við Viðskiptablaðið á dögunum að það hefði verið mikill vilji af hans hálfu að sameina LÍ og Straum og láta erlenda "reynslubolta" taka við skútunni.

Jafnframt fóru fram umleitanir um að mynda risabanka með sameiningu Landsbankans, Glitnis og Straums í árslok 2007. Straumur var orðaður við bresku fjárfestingarbankana Close Brothers, Collins Stewart og Panmure Gordon árið 2008. Auk þess var í tvígang rætt við stjórnendur fjárfestingarbankans Carnegie um mögulegan samruna árið 2008 en Milestone átti stóran hlut í sænska félaginu.