Tólf sveitarfélög eru yfir leyfilegu skuldaviðmiði, sem þýðir að þau skulda meira en 150% af reglulegum tekjum sínum. Viðskiptablaðið rýndi í rekstur sveitarfélaga út frá tölum úr Árbók sveitarfélaga og ársreikningum þeirra fyrir árið 2013. Þó að tólf sveitarfélög séu yfir 150% skuldaviðmiðinu þá hefur rekstur þeirra flestra batnað milli ára með aukinni hagræðingu.

Af öllum sveitarfélögum landsins er staðan verst í Reykjanesbæ. Töluvert hefur verið fjallað um skuldastöðu bæjarins undanfarna viku eða eftir að út komu tvær skýrslur um reksturinn. Annars vegar var það skýrsla frá KPMG og hins vegar skýrsla Haraldar L. Haraldssonar, hagfræðings og núverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Niðurstaðan er í grófum dráttum sú að reksturinn hafi gengið afleitlega undanfarin ár. Við blasir að lækka þarf rekstrarkostnað, sem þýðir til dæmis að skerða þarf þjónustu og hugsanlega segja upp fólki og hækka tekjur, sem þýðir meðal annars hækkun ýmissa þjónustugjalda. Einnig þarf bærinn að reyna að endurfjármagna skuldir sínar og líklega selja eignir ef reksturinn á að komast á réttan kjöl.

Í lok síðasta árs skuldaði bærinn 40,4 milljarða króna, sem er reyndar svipað og Kópavogsbær og Hafnarfjörður skulduðu. Munurinn er hins vegar sá að íbúar og í Hafnarfirði og Kópavogi eru tvöfalt fleiri en í Reykjanesbæ og tekjurnar þar af leiðandi töluvert meiri. Í fyrra námu tekjurnar 21,8 milljörðum í Kópavogi, 18,7 milljörðum í Hafnarfirði en 14,8 í Reykjanesbæ. Það sveitarfélag sem er næst Reykjanesbæ í íbúafjölda er Garðabær. Þar námu heildarskuldirnar í fyrra 9,8 milljörðum en eins og flestir vita sameinuðust Garðabær og Álftanes þann 1. janúar árið 2013. Á þeim tímapunkti skuldaði Álftanes, sem var fámennt sveitarfélag, 3,3 milljarða og var skuldahlutfallið 221% brúttó.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .