Þrjátíu nýir þingmenn; 15 konur og 15 karlar, taka sæti á Alþingi eftir kosningar ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið . Þar af kæmu 17 nýir þingmenn frá Framsóknarflokknum, sem fengi 24 kjördæmakjörna þingmenn.

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að skipt eftir aldri kjósenda er fylgistap Sjálfstæðisflokksins mest meðal 30-49 ára og 50-64 ára. Fylgistapið mælist hinsvegar talsvert minna hjá aldurshópunum 18-29 ára og 64 ára og eldri. Stærstur hluti þessa fylgis fer yfir til Framsóknar.

Af núverandi þingmönnum eru tólf sem ekki kæmust inn nú verði niðurstöður kosninga í samræmi við könnunina. Má þar nefna Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Sigmund Erni Rúnarsson, Ólínu Þorvarðardóttur, Valgerði Bjarnadóttur, Skúla Helgason, Mörð Árnason, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Geirsson hjá Samfylkingu. Þingmenn VG, sem ekki næðu endurkjöri yrðu Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björn Valur Gíslason og Álfheiður Ingadóttir og þá eru Birgir Ármannsson og Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, úti samkvæmt könnuninni.