Tólf fyrrverandi dómarar og prófessorar hafa verið kallaðir til sem varadómarar við Hæstarétt frá áramótum vegna veikinda eins dómara. Í fyrra var enginn varadómari kvaddur til.

Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir í samtali við Morgunblaðið að varadómarar eru almennt kallaðir til vegna forfalla fastra dómara eða ef svo margir þeirra eru vanhæfir í máli að ekki er hægt að fylla dóminn. Hann segir allan gang á því hvernig varadómarar eru valdir. Fyrst og fremst séu það fyrrverandi hæstaréttar- og héraðsdómarar eða prófessorar.

Morgunblaðið telur upp að af þeim tólf sem kallaðir hafa verið til sem varadómarar eru átta fyrrverandi hæstaréttardómarar. Þau eru Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrýsson, Hjördís Björk Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson. Þá hafa Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, Friðgeir Björnsson, fyrrverandi dómstjóri, Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor, og Stefán Már Stefánsson, fyrrverandi prófessor verið settir varadómarar frá áramótum.