*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 31. desember 2017 11:01

Tölfræði fjölmiðla 2017

Íslenskir fjölmiðlar sögðu 449.889 fréttir eða um 1.233 að meðaltali á dag á árinu 2017.

Andrés Magnússon
Tölfræði fjölmiðla árið 2017.
Skjáskot

Samkvæmt fjölmiðlavakt Creditinfo voru sagðar 449.889 fréttir í íslenskum fjölmiðlum árið 2017. Það er dálaglegur fjöldi, 1.233 fréttir á dag í fámennu landi. Af þeim er eru ekki nema um 36% í stóru daglegu, hefðbundnu fréttamiðlunum: Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og ljósvakamiðlum 365 og Ríkisútvarpsins.

Skýringarinnar er að leita á netinu, því þar eru um 59% íslenskra frétta sagðar. Nú er það vissulega svo, að netmiðlarnir endurbirta mikið úr hefðbundnu miðlunum (bæði systurmiðlar og hinir sem sumir endursegja mikið fréttir annarra). Hjá því verður þó ekki litið að æ meira fjölmiðlaefni er unnið fyrir netið einvörðungu.

Íslenskir fjölmiðlar líkt og aðrir eru í mikilli deiglu og eru komnir í hörkusamkeppni um aurana við auglýsingasala erlendra félagsmiðla, sem er ein skýring þess að tekjur þeirra hafa lítt aukist í efnahagsuppgangi síðustu ára.

Sem sjá má á topplistunum að neðan fær landsmálapólítikin langmest rúm í íslenskum miðlum. Svo mjög að á viðmælendalistanum er aðeins tveir viðmælendur, sem standa utan stjórnmálanna. Það er þó framför frá listanum í fyrra. Þar voru allir pólitíkusar. Sem fyrr reyndist Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, meðal vinsælustu viðmælenda og seig fram úr Bjarna Benediktssyni í kosningabaráttunni. Það er vel af sér vikið hjá stjórnarandstöðuleiðtoga og bendir til þess að forsætisráðherra muni hafa nokkra yfirburði að þessu leyti á næstunni. Eins er mjög eftirtekarvert hve fyrrverandi ráðherrar Viðreisnar hafa verið fjölmiðlavænir.

Á lista umfjöllunarefna er Sjálfstæðisflokkurinn í algerum sérflokki, um hann fjölluðu meira en tvöfalt fleiri fréttir en næsta flokk á eftir. Á þeim lista má finna alla flokka, sem voru á þingi fyrir kosningar, en einnig alla stóru miðlana þrjá, 365 miðla og Ríkisútvarpið í 4. og 5. sæti, beint á eftir Alþingi, og Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, er ekki víðs fjarri. Við skulum vona að þar að baki búi helst fréttir með tilvitnunum í aðra miðla

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.