Samkvæmt fjölmiðlavakt Creditinfo voru sagðar 177.116 fréttir í íslenskum fjölmiðlum árið 2019, frá upphafi árs fram í fyrstu viku desember. Það er dágóður fjöldi, um 520 daglegar fréttir á örríki. Af þeim eru um 68% sagðar í stóru daglegu, hefðbundnu fréttamiðlunum: Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, ljósvakamiðlum Sýnar og Ríkisútvarpsins. Ef netmiðlar þeirra eru ekki meðtaldir segja hinir hefðbundnu miðlar aðeins um 30% fréttanna.

Megnið af fréttaflóðinu liggur á netinu, þó þar sé að vísu mikið um endurbirtingar úr móðurmiðlunum. Þó er það ekki á eina bók lært, prentútgáfa Morgunblaðsins segir þannig um þriðjungi fleiri fréttir en finna má á mbl.is, en netútgáfan segir auk þess fjölmargar sjálfstæðar fréttir. Ríkisútvarpið er raunar með talsvert af endursögn frétta á ljósvakanum, svo að þó þær séu nær undantekningalaust endurbirtar á vefnum, þá segir ruv.is færri fréttir en móðurskipið. Vísir flytur hins vegar töluvert af sjálfstæðum fréttum, en um þriðjungur er af ljósvakafréttastofum Sýnar og sjálfsagt annað eins úr Fréttablaðinu, samkvæmt samningi sem nú er runninn út.

Sem sjá má á topplistanum að neðan fær landsmálapólitikin langmest rúm í íslenskum miðlum. Segir kannski sína sögu að Sjálfstæðisflokkurinn kemur við sögu í liðlega 11% allra frétta! Vinstrigræn í tæpum 9% allra frétta. Þangað sleppa aðeins tvö einkafyrirtæki, flugfélögin Wow og Icelandair, en það segir kannski sitt um fréttamatið að flugvallarhaldarinn Isavia var meira í fréttum en Icelandair.

Þriðja árið í röð reyndist Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrigrænna, langvinsælasti viðmælandinn úr stjórnmálastétt á ljósvakamiðlum, en Bjarni Benediktsson er í öðru sæti, þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi töluvert forskot á Vinstrigræn á lista umfjöllunarefna, en aðrir flokkar nokkuð þar á eftir. Þegar horft er til fréttaframleiðslu daglegra miðla er forystuhlutverk Morgunblaðsins afgerandi, en það segir fleiri og fjölbreyttari fréttir en hinir daglegu, almennu fréttamiðlarnir samanlagt.