Að þessu sinni er hér slegið upp lista sem netrisinn Google hefur gefið út um þær leitir, sem mannkyn hefur helst haft frammi á leitarvél þess. Þar í hljóta að felast afar ákveðnar vísbendingar um helstu áhugamál og áhyggjur manna.

Sjálfsmorð gamanleikarans Robin Williams hefur greinilega komið við marga, því leitin að nafni hans slær út bæði heimsmeistarakeppnina og ebola-sjúkdóminn skæða.

Það er einnig eitthvað fallegt við að Disney-myndin Frozen slái út vetrarólympíuleikana í Sochi, ótrúlegt að menn hafi beinlínis gert leit að ísfötuáskoruninni og sigur vestrænnar siðmenningar gegn villimennskunni að Conchita Wurst skuli skora hærra en óþjóðalýðurinn í ISIS. Og þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár, sem engin græja frá Apple sleppur í 10 efstu sætin hjá Google.