Félagsmiðlar eru kannski ekki fjölmiðlar, en þeir eru að minnsta kosti fjölmiðlaveitur. Fjölmiðlar þurfa eiginlega að koma sér fyrir þar vilji þeir fá lestur eða áhorf í netheimum og í sumum tilvikum geta félagsmiðlarnir hlutast mikið til um hversu ágengt miðlunum verður við þá leit að neytendum.

Félagsmiðlunum er auðvitað einnig nauðsynlegt að hafa efni frá fréttamiðlum, það er þeirra bitastæðasta efni, a.m.k. sá hluti sem ekki er beinlínis upprunninn hjá notendum sjálfum, hvort sem það er persónulegs eðlis eða frá svonefndum áhrifavöldum.

Miðað við rannsókn Pew vestanhafs er þetta enn að ágerast. Fyrir fréttamiðla, sem frumvinna eiginlegar fréttir (ekki aðeins slebbafréttir, skemmtiefni og skrum), hallar hins vegar enn verulega á tekjuhliðina. Það er meinið.