Flestir almennir og útbreiddir fjölmiðlar, hvar sem er í heiminum, eru upp á náð auglýsenda komnir, en áskriftir hrökkva jafnan skammt sem tekjuliður. Auglýsingatekjurnar eru enda fyrirtaks mæling á útbreiðslu miðlanna, þó að vissulega endurspegli þær líka neytendahópinn.

Að ofan sést þróunin á auglýsingamarkaði í Bandaríkjunum undanfarinn aldarþriðjung, en þó að hann sé vitaskuld í mörgu, jafnvel flestu, frábrugðinn því sem hér þekkist, þá finna Evrópubúar – líka Íslendingar – jafnan fyrir sömu markaðshneigðum og vart verður við vestra, bara nokkrum árum síðar.

Það gætti bólu í fjölmiðlum víðar en á Íslandi, en burtséð frá henni hefur auglýsingamarkaðurinn nánast tvöfaldast á þessum tíma. Það er netið sem er sigurvegarinn, en flestar aðrar gerðir miðla halda í horfinu. Nema dagblöðin. Þau eru í vondum málum.