Þegar fríblöð ruddu sér rúms í upphafi aldarinnar voru margir sem spáðu því að þau myndu skjótt ryðja áskriftarblöðum til hliðar og vera einráð á markaði. Víst er um það, að fríblöðin ruddu mörgum hefðbundnum dagblöðum um koll og veiktu önnur verulega. Spyrjið bara Morgunblaðsmenn.

Hins vegar hefur það gerst að frægðarsól fríblaðanna hefur lækkað ört frá því hin alþjóðlega fjármálakreppa hófst árið 2008, enda eru þau einstaklega útsett fyrir hræringum á auglýsingamarkaði. Titlunum hefur fækkað um helming og útbreiðslan litlu minna. Sú þróun virðist ekki vera á enda komin.

Ekki svo að skilja að áskriftarblöðin hafi náð sér verulega á strik, þau eru líka mörg hver í uppnámi. Á hinn bóginn er nú þegar búið að grisja þau svo mikið, að hin veikari þeirra eru flest úr sögunni.